Umsagnarferli um reglur um leigusamninga í reikningsskilum lokið
Umsagnarferli vegna draga að reglum um reikningshaldslega meðferð leigusamninga í reikningsskilum leigutaka sem fyrirhugað er að sett verði af reikningsskilaráði lauk 1. október en drögin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 17. september. Tilgangur reglnanna er að taka á þeim vafa sem uppi hefur verið um gildissvið IFRS 16 gagnvart félögum sem gera ársreikninga sína í samræmi við lög 3/2006 um ársreikninga. Ríkjandi hefur verið sú túlkun að gildandi ársreikningalög kalli á að allir þeir sem gera upp í samræmi við þau þurfi að beita staðlinum, þó reyndar hafi ekki verið einhugur um það. Til stóð að leggja fram frumvarp til breytinga á ársreikningalögum og fór tillaga að slíku frumvarpi í umsagnarferli en ekki kom til þess að það væri lagt fram á þingi eða samþykkt. Fyrr á árinu var síðan boðað að til stæði að reikningsskilaráð myndi setja reglu sem tæki á málinu.
Drögin gera ráð fyrir að leigutakar sem eru undir stærðarmörkum stórra félaga og eru ekki móðurfélög stóra samstæða í skilningi ársreikningalaga sé heimilt að beita áfram eldri reikningsskilaaðferð. Það er flokka leigusamninga í samræmi við ákvæði þeirra í rekstrar- og fjármögnunarleigusamninga. Leigugjöld rekstrarleigusamninga skulu samkvæmt því áfram færast til gjalda í rekstri án þess að færð sé eign eða skuld á efnahagsreikning félagsins vegna leigusamningsins.
Til stórra félaga og móðurfélaga stórra samstæða teljast félög og samstæður þar sem 2 atriði af 3 eiga við. Heildareignir eru yfir 3 ma. kr., hrein velta er yfir 6 ma. kr. eða meðalfjöldi ársverka á fjárhagsári er yfir 250.
Í drögunum er að finna bráðbirgðarákvæði sem veitir stórum félögum og stórum samstæðum heimild til að fresta gildistöku reikningsskilareglna IFRS 16 til reikningsára sem hefjast 1. janúar 2022 eða síðar.
Sjá má drögin og þær umsagnir sem bárust hér:
https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2780